Boot Camp æfingaaðferðin hefur notið mikilla vinsælda hér á landi og í næstu viku verður opnuð ný Boot Camp líkamsræktarstöð í Kaupmannahöfn, Budz Boot Camp. Stöðin er opnuð að fyrirmynd Boot Camp á Íslandi sem er í eigu þeirra Arnaldar Birgis Konráðssonar og Róberts Traustasonar, stofnenda Boot Camp hér á landi.

Það eru hjónin Nick og Anita Watkins sem standa að opnun Budz Boot Camp, hún er íslensk en hann er hálfur Breti og hálfur Dani. Þau hafa verið búsett í Danmörku um nokkurt skeið en hafa sótt Boot Camp tíma hér á landi þegar þau hafa heimsótt landið.

„Þau sýndu því mikinn áhuga að opna Boot Camp stöð úti og í kjölfarið fóru hjólin að snúast,“ segir Arnaldur Birgir í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um aðdraganda Boot Camp í Danmörku.

„Við höfum verið með fjölmög útibú hér á landi í nokkur ár þannigað það er komin ágætis reynsla á það. Síðustu mánuði höfum við unniðað gerð vörumerkjasamnings (e. franchise) fyrir starfsemi erlendis en síðustu árin höfum við lagt mikla vinnu í að þróa hugmyndafræðina sem liggur að baki Boot Camp á Íslandi í dag. Við erum auðvitað ekki að finna upp armbeygjur og magaæfingar, en heildarmyndina í kringum æfingakerfið höfum við þróað.“

Arnaldur Birgir segir að þess vegna hafi verið ákveðið að notast við heitið Budz Boot Camp í Danmörku, en Boot Camp eitt og sér nýtur ekki réttinda sem vöruheiti erlendis þó þeir hafi tryggt sér einkarétt á vörumerkinu hér á landi.

Ólíkt fyrri útrásum

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem íslensk líkamsræktarstöð er opnuð erlendis og skemmst er að minnast umfangsmikillar útrásar World Class í Danmörku sem setti fyrirtækið nánast á hliðina. Í ljósi fyrri reynslu verður því ekki hjá því komist að spyrja Arnald Birgi um mögulegar hættur sem fylgja útrás líkamsræktarstöðva. „Við gerum leigusamning um vörumerkið Boot Camp þannig að við erum ekki að setja okkar eigið fjármagn í þessa stöð,“ segir Arnaldur Birgir. „Það skiptir okkur þó miklu máli að þetta gangi vel en ávinningurinn liggur fyrst og fremst í vörumerkinu og orðsporinu en ekki í peningum.“

Þá segir Arnaldur Birgir að stofnkostnaðurinn við stöðina úti sé mun minni en við opnun hefðbundinnar líkamsræktarstöðvar og þ.a.l. sé áhættan minni. Það hafi verið sameiginleg ákvörðun að byrja smátt og leyfa stöðinni frekar að vaxa. Þannig jafnist kostnaðurinn við tækjakaup aðeins á við fjögur hlaupabretti í venjulegri líkamsræktarstöð svo dæmi sé tekið.

„Þess utan er þetta ný stöð, það er ekki verið að kaupa eða yfirtaka fyrirtæki og breyta rekstrinum eins og hefur áður verið reynt,“ segir Arnaldur Birgir og bætir því við að þau Nick og Anita þekki viðskiptaumhverfið og þjóðlífið í Danmörku vel.

Nánar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blað vikunnar undir Tölublöð.