Boots heldur áfram að herða róðurinn, því blikur eru á lofti á breskum smásölumarkaði. Sala hjá breska snyrtivöru- og heilsu smásalanum hefur verið dræm og horfur eru ekki góðar, segir i Financial Times.

Stutt er síðan Boots ákvað að selja rekstur sinn með vörum sem afgreiddar eru án lyfseðils, Healthcare International (BIH) vegna þess að hagnaðarhorfur fara minnkandi. Talsmenn Boots segja að gengi heilsu- og snyrtivara hafa verið ágætt en sala á mat- og ljósmyndavörur sem og raftækjum hafi dregist saman.

Boots reynir nú að þjappa rekstrinum saman og einbeita sér betur að mikilvægustu mörkuðum sínum. Lögð verður aukin áhersla á heilsu- og snyrtivörur. Í þessu sambandi ákvað Boots að losa sig við BIH. Samkeppnin vex sífellt, stórmarkaðir og stærri verslanir eru farnar að selja lyf án lyfseðla.

Boots hefur meðal annars framleitt og selt Strepsils, hálsbólgu- og slímlosandi lyf. GlaxoSmithKline í Þýskalandi hefur sýnt rekstri BHI áhuga. Talið er að söluandvirðið liggi á bilinu 1,3-1,6 milljarðar punda eða um 145-178 milljarðar kr. Hagnaður BHI fyrir skatta í fyrra var 95 milljónir punda eða 10,6 milljarðar kr. Sölutekjur fyrir skatta voru 500 milljónir punda eða um 55,6 milljarðar kr.

Ef kaupin ganga eftir styrkir GSK almennan heilsurekstur mikið. Á síðasta ári skilaði hann GSK 20 milljörðum punda eða 2.225 milljörðum kr. GSK selur fjölda vinsælla vörutegunda á heilsumarkaði, til dæmis Aquafresh, Sensodyne, Panadol og NiQuitin. Eins eru þeir með Lucozade, Horlicks og Ribena. Nýlega sótti GSK um einkaleyfi í Bandaríkunum á nýrri tegund lyfs gegn offitu, Orlistat.