Kvikmyndafyrirtækið 20th Century Fox mun tilkynna 530 milljón Bandaríkjadala (36 milljarða krónu) fjármögnunarsamning sem vogunarsjóðurinn Dune Captial Management mun standa á bak við í kjölfar velgengni kvikmynda á borð við Borat og The Devil Wears Prada, segir í frétt Financial Times.

Aukning hefur verið í áhuga vogunarsjóða og fjárfestingarfélaga í kvikmyndaiðnaðnum að undanförnu. Dune Captial Management, sem áður var undir stjórn milljarðamæringsins George Soros, gerði samning um fjármögnun nokkurra kvikmynda á síðasta ári, en mikil velgengni mynda sem voru fjármagnaðar með fyrri samningnum mun vera ástæða þess að nýr samningur verður gerður.

Með samningnum verða 15 kvikmyndir fjármagnaðar, þar á meðal fjórða Die Hard kvikmyndin.

Kvikmyndin um fréttamanninn Borat frá Kasakstan er talin hafa kostað 20 milljónir Bandaríkjadala (1,4 milljarða krónur) í framleiðslu, en stefnir í að hala inn yfir hundrað milljónir Bandaríkjadala (6,9 milljarða krónur) í miðasölu. Miðasala erlendis og sala á DVD diskum gæti svo tvöfaldað þá upphæð.

Velgengni Borat varð til þess að kvikmyndaverin kepptust við að bjóða aðalleikara og handritshöfundi myndarinnar, Sacha Baron Cohen, fúlgur fjár fyrir réttin að næstu mynd hans. Universal hafði sigur að lokum og munu greiða 40 milljónir Bandaríkjadala fyrir hans næstu mynd, sem verður um austuríska tískufréttamanninn Bruno.

Ekki koma þó allir jafn vel út úr slíkum samningum. Virtual Studios, sem stutt er af vogunarsjóði, gerði 530 milljón Bandaríkjadala samning við Warner Brothers, samningurinn hljóðaði upp á gerð sex kvikmynda og meðal þeirra var Poseidon, en sú kvikmynd kolféll í miðasölu.