*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 26. nóvember 2019 07:03

Borð fyrir báru í fasteignalánum

„Við erum nýbúin að fara í gegnum eitt hrun og höfum lært af því," segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.

Ingvar Haraldsson
Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.
Eyþór Árnason

Harpa Jónsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, segir hagkerfið nú um mundir að mörgu leyti standa vel og betur en margir óttuðust við fall Wow air og áður en lending náðist í kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Harpa starfaði hjá Seðlabankanum í áratug, þar af sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs frá árinu 2016. Eftir spár um allt að 1,9% samdrátt er nú búist við að hagvöxtur verði nálægt 0% í ár. Þá hefur neysla ferðamanna aukist verulega sem hefur vegið á móti fækkun þeirra. Enn er viðskiptaafgangur og skuldsetning er lítil.

„Við erum orðin góðu vön. Það er búinn að vera ofboðslegur hagvöxtur. Það lítur út fyrir að við séum að taka mjög mjúka lendingu eftir stóru toppana sem fylgdu þessari miklu fjölgun ferðamanna. Horfurnar eru ágætar og betri en menn þorðu að vona í vor. En við erum í breyttu umhverfi og í svolitlum beygjuskilum hvað það varðar því niðursveiflan nú er með allt öðrum hætti en við höfum séð hingað til. Venjulega hefur þessu fylgt verðbólguskot og gengisfall sem er ekki staðan í dag.“

Sjá einnig: Ólíklegt að almenningur næði betri ávöxtun

Lífeyrissjóðir hafa á síðustu árum aukið bein húsnæðislán til einstaklinga. Harpa segir húsnæðislán til einstaklinga vera orðin rúm 13% af eignum lífeyrissjóðsins. LSR, líkt og fleiri lífeyrissjóðir, herti fyrr á þessu ári skilyrði fyrir lánum. „Við hertum skilyrðin í vor. Verðhlutföllin voru lækkuð örlítið því húsnæðisverð hafði hækkað mikið um nokkra hríð. Það er enn mjög góður gangur í útlánunum.“

Sjá einnig: Loftslagsmál og lífeyrir fari saman

Margir hafa lýst áhyggjum af því hvað gerist í næstu stóru niðursveiflu ef stórir hópar geti ekki greitt af fasteignalánum lífeyrissjóða. „Við erum nýbúin að fara í gegnum eitt hrun og höfum lært af því. Við erum mjög meðvituð um að hafa ekki of mikla áhættu í safninu því við þurfum að borga út lífeyri. Þess vegna voru verðhlutföllin lækkuð hjá okkur. Það er því mikið borð fyrir báru þó að húsnæðismarkaðurinn taki dýfu.“

Nánar er rætt við Hörpu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: LSR Harpa Jónsdóttir