Svo áratugum skiptir hefur nautakjötneysla Bandaríkjamanna dregist saman, en útlit er fyrir að það sé að breytast, samkvæmt tölum frá bandaríska landbúnaðarráðuneytinu.

Í frétt Bloomberg segir að gert sé ráð fyrir því að meðal Bandaríkjamaðurinn borði um 24,6 kíló af nautakjöti á ári í ár, en það er um 250 grömmum meira en meðalmaðurinn borðaði í fyrra. Ef spáin rætist verður þetta í fyrsta sinn frá árinu 2006 sem nautakjötsneysla á mann eykst í Bandaríkjunum.

Það sem helst veldur aukningunni er að framboð á nautakjöti hefur aukist, en einnig spilar inn í sú tíska að borða kolvetnasnauðan mat, en slíkt mataræði er gjarnan mjög ríkt af kjöti.