*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 14. október 2019 13:49

Borðplatan reyndist ekki gölluð

Kostnaður við 830 þúsund króna marmaraborðplötu manns mun reyndist nokkuð hærri þegar upp var staðið.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Viðskiptavinur Granítsteina ehf. var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur til að greiða fyrirtækinu tæplega 830 þúsund krónur, auk dráttarvaxta frá júní í fyrra, auk 910 þúsund króna í málskostnað. Deila málsaðila laut að marmaraborðplötu sem viðskiptavinurinn taldi gallaða.

Umrædd borðplata var sett upp í húsi viðskiptavinarins í árslok 2017 og var reikningur vegna hennar, jafn stefnufjárhæð málsins, gefinn út milli jóla og nýárs það ár. Sama dag sendi kaupandi tölvupóst á fyrirtækið og sagði að sprungur væri að finna í plötunni. Því var svarað um hæl og sagði fyrirtækið að það myndi senda mann í að líta á þetta.

„Sæll, eins og þú veist er ég óánægður með sprungur og hrjúft yfirborð sumstaðar á borðplötunum. Eftir að þú komst í síðustu viku og sagðir að þetta væri allt eðlilegt hef ég talað við fjölda manns og farið í heimsóknir þar sem er marmari á borðum. Niðurstaðan er að þessi steinn sé gölluð vara og óska ég eftir því að fá það bætt,“ sagði í tölvupósti kaupanda til fyrirtækisins í byrjun árs 2018.

Nokkur samskipti áttu sér stað næstu daga sem enduðu með að starfsmenn Granítsteina komu á heimilið, skoðuð plötuna og komust að þeirri niðurstöðu að hún væri ekki gölluð. Ítrekað var reynt að innheimta reikninginn en án árangurs. Viðskiptavinurinn lýsti síðan yfir riftun á kaupunum í apríl í fyrra.

Fyrirtækið sagði fyrir dómi að ekki hefðu verið sprungur í plötunni heldur hafi hún verið rennislétt. Það sem viðskiptavinurinn hafi talið sprungur hafi verið litaafbrigði í plötunni þar sem um náttúrustein hafi verið að ræða. Platan hafi verið slípuð og viðskiptavininum síðan tilkynnt að platan væri ekki gölluð. Kröfu um riftun var mótmælt enda hafi galla ekki verið haldið fram fyrr en reikningur var gefinn út. Þá hafi borðplatan verið notuð í rúmlega eitt og hálft ár af viðskiptavininum.

Platan töluvert dýrari vegna málskostnaðar

Viðskiptavinurinn byggði á því á móti að platan hefði verið gölluð og skilyrði riftunar uppfyllt. Þá hafi einnig, á einum tímapunkti, náðst samkomulag um að fyrirtækið tæki borðplötuna aftur til sín og lagður fram tölvupóstur þess efnis. Í honum sagði m.a. „[þ]á tökum við steininn til okkar aftur og þú finnur aðra lausn á þessu.“

Í dómi héraðsdóms sagði að umræddan póst yrði að lesa í samhengi við önnur samskipti aðila. Eftir að þau hafi átt sér stað hafi starfmenn Granítsteina komið og skoðað plötuna og eftir þá skoðun ekki fallist á gallann. Því hafi ekki verið uppi samkomulag um riftun eða að kaupin gengju til baka.

„Samkvæmt framansögðu greinir aðila á um hvort um eðlilegar línur er að ræða eða sprungur og þá orsakir þeirra. Við vettvangsgöngu voru þær flestar varla sjáanlegar nema bent væri á þær og verður ekkert fullyrt um hvort um eðlilegar línur er að ræða eða sprungur. [Kaupandi] ber sönnunarbyrði fyrir því að um galla sé að ræða en hann hefur engan reka gert að því að sýna fram á að svo sé, s.s. með matsgerð,“ segir í dóminum. Var því fallist á kröfu fyrirtækisins.

Við ákvörðun málskostnaðar var litið til úrslita málsins. Lögmaður fyrirtækisins hafði unnið að því í rúmlega 31 klukkustund en lögmaður viðskiptavinarins lagt tvöfalt fleiri vinnustundir í það. Að því virtu var fallist á málskostnaðarreikning Granítsteina. Viðskiptavinurinn mun að auki þurfa að greiða laun síns lögmanns, nema samkomulag sé um annað milli þeirra, og því mögulegt að borðplatan verði allt að fjórfalt dýrari en upphaflega var ráðgert.