Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa notið veitinga, matar og drykks, á einkarekinni veitingastofu fyrir rúmar 800 þúsund krónur á tíu mánaða tímabili að því er Fréttablaðið greinir frá eftir fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins.

Um er að ræða greiðslur vegna samnings borgarinnar við vinnu- og samkomurýmið Vinnustofa Kjarvals sem er við Austurvöll, vegna veitinga á starfsdögum, starfsþróunarsamtala, námskeiða og ráðstefna sem borgarstarfsmennirnir hafa haft á vinnustofunni.

Tímabilið sem um ræðir er frá 1. nóvember 2019 til 31. ágúst 2020, en borgin greiðir 1,6 milljónir króna fyrir ársaðgang starfsfólksins að vinnustofunni, en í honum felst aðgangur að kaffi úr vél og kolsýrðu vatni.

Viðbótarfjárhæðin sem greitt var fyrir veitingarnar á tímabilinu nam 821.088 krónum. Stærsti hlutinn fór til Þróunar- og nýsköpunarsviðs borgarinnar, 270 þúsund krónur. Næst stærsti til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, tæplega 155 þúsund krónur og loks rúmar 120 þúsund krónur til Menningar- og ferðamálasviðs.

Umhverfis- og skipulagssvið var ódýrast, en 1.800 krónur má rekja til notkunar þess á rýminu. Auk þess er Velferðarsvið með kostnað upp á rúmar 120 þúsudn krónur vegna jólaboðs en það svið er ekki með aðgangskort eins og hinar.