*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 21. desember 2007 09:37

Borframkvæmdir að hefjast í Þýskalandi

Ritstjórn

Exorka GmbH og Hekla Energy GmbH, nýstofnað dótturfélag Jarðborana í Þýskalandi, hafa gengið til samstarfs um borframkvæmdir ytra og var samningur þar að lútandi undirritaður í Munchen í síðustu viku. Verkefnið tekur til borunar á mjög djúpum jarðhitaholum í Suður-Þýskalandi sem verða sex talsins. Áætlað er að dýpt hverrar holu verði allt að 5.000 metrum og er það mesta dýpt sem íslenskt fyrirtæki hefur nokkru sinni borað.

Rætt er við Bent Einarsson forstjóri Jarðboran í Viðskiptablaðinu í dag.

Í tilkynningu vegna samstarfsins segir að flutningi á hinum nýja hátæknibor Hekla Energy á borsvæði Exorku er að mestu lokið, en vinnu við tengingar og frágang verður lokið fyrir jól. Reiknað er með að sjálfar borframkvæmdirnar hefjist að fullu strax eftir áramót og verður beitt stefnuborunartækni sem er bæði hagkvæm og umhverfisvæn. Verðmæti samningsins er um 1,5 milljarðar króna sem hækkar í 3,0 milljarða króna, nýti verkkaupi ákvæði þess efnis að framlengja verkefnið um 6 holur til viðbótar.

Íslenskt raforkuver í Mauerstetten

Dótturfélagið Hekla Energy GmbH var stofnað s.l. sumar í framhaldi af kaupum Jarðborana á nýjum, hátæknivæddum stórborum. Þeir eru smíðaðir í Þýskalandi af fyrirtækinu Herrenknecht og eru sérstaklega hannaðir til að bora mjög djúpar holur eftir jarðhita. Fyrsti borinn verður tekinn í gagnið í framangreindu verkefni. Hann verður sá öflugasti í flota samstæðu Jarðborana og er lyftigeta hans allt að 350 tonnum.

Hekla Energy mun bora fyrstu þrjár holurnar í Mauerstetten sem er u.þ.b. 100 km suðvestur af München en í Mauerstetten hefur Exorka í hyggju að reisa fyrsta raforkuver sitt. Áætlað er að þessum borframkvæmdum ljúki fyrir árslok 2008. Um er að ræða mjög djúpar holur í samanburði við það sem þekkist hér á Íslandi, en hver hola verður á bilinu 4.000-4.500 metrar að dýpt. Það er fyrst á þessu dýpi sem reiknað er með hita á bilinu 125-130 gráður, en Exorka mun nýta hann til að framleiða rafmagn með svonefndri Kalina tækni. Þessi tækni felst í því að raforka er framleidd við kælingu á heitu vatni.

Selt inn á Landsnetið

Phil Hutchins, framkvæmdastjóri Exorku, fagnar þessum mikilvæga áfanga í umsvifum fyrirtækisins í Þýskalandi í tilkynningunni er haft eftir honum: “Undirbúningurinn að verkefnum okkar hér hófst árið 2005. Þegar allar borholur eru fullreyndar og frágengnar tekur við þróun og bygging orkuvers sem við áætlum að muni taka hálft annað ár en þar verður jarðvarminn virkjaður til raforkuframleiðslu. Rafmagnið verður svo væntanlega selt inn á Landsnet þeirra Þjóðverja. Þar getur það komið í stað rafmagns sem framleitt er með kolum eða gasi og dregið þannig úr losun gróðurhúsaloft-tegunda.”

Hagnýting á jarðhita til framleiðslu á raforku er rétt að hefjast í Þýskalandi, en þar er mikil vakning til nýtingar á vistvænum orkugjöfum í stað jarðefnaeldsneytis. Exorka á nú þegar nokkur vinnsluréttindi Suður Þýskalandi og hyggst fyrirtækið láta enn frekar til sín taka á þessum vettvangi á allra næstu árum.

Álitleg sóknarfæri

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, markar samningur fyrirtækjanna tímamót þar um er að ræða fyrsta verkefni dótturfélagsins Hekla Energy GmbH. „Fyrri reynsla samstæðu Jarðborana af markaðsstarfi og verktöku á Azoreyjum og víðar er gott vegarnesti en sókn okkar á hinn stóra þýska markað markar alveg nýtt upphaf. Jafnframt er sterkur heimamarkaður í tengslum við uppbyggingu stóriðju á Íslandi fyrirtækinu mikilvægur stökkpallur til útrásar. Við höfum vandað mjög valið við ráðningu á starfsfólki Hekla Energy í Þýskalandi. Þetta fólk býr yfir mjög góðri faglegri kunnáttu, þekkingu á staðháttum og reynslu og þegar við bætist sérþekking og reynsla starfsfólks Jarðborana verður til mjög öflug liðsheild. Þýskt atvinnulíf er reyndar ekki auðvelt vígi á að sækja. Þar eru kröfur einstaklega strangar á alþjóðlegan mælikvarða og þá sérstaklega varðandi umhverfismál og öryggi á vinnustöðum. Við búum hins vegar að reynslu okkar frá Íslandi þar sem aðhald af hálfu hins opinbera á þessum sviðum er ekki síður strangt en í Þýskalandi,” eins og haft er eftir honum í tilkynningunni.

„Hekla Energy GmbH hefur allar forsendur til að verða þekkt nafn á hinum ört vaxandi markaði fyrir vistvæna og endurnýjanlega orku í Evrópu og við hlökkum til að beita í einu lagi sérþekkingu okkar og nýjum hátæknibúnaði. Útrás íslenskrar þekkingar á sviði jarðhita er ekki bara hugmynd, hún er áþreifanleg útflutningsvara engu síður en fiskur og ál.“