Lyfjarisinn GlaxoSmithKline (GSK) þarf að borga 490 milljónir dollara í sekt eftir að fyrirtækið var sakfellt fyrir mútur fyrir dómstól í Kína. Það eru tæplega 59 milljarða íslenskra króna.

Fyrirtækið var sakað um að hafa mútað læknum og spítölum til þess að nota lyf þess, og er sagt hafa grætt 150 milljónir dollara með ólöglegum hætti. Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir GSK, sem er eitt stærsta fyrirtæki Bretlands og hefur starfað í Kína í tæpa öld. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að það hafi lært af málinu og það hafi verið mikil vonbrigði.

Mark Reilly, fyrrverandi yfirmaður starfsemi GSK í Kína, fékk þriggja ára skilorðsbundinn dóm og verður vísað úr landi. Aðrir yfirmenn fengu einnig skilorðsbundna dóma.