Framkvæmdastjóri og stofnandi rafbílaframleiðandans Tesla Motors - Elon Musk - hefur nú sagt að „augljóslega muni kaupendur Model 3 bílsins þurfa að greiða aukalega fyrir að fá að nota hraðhleðslustöðvar Tesla sem eru staðsettar á víð og dreif um Bandaríkin.

Eins og stendur geta eigendur Tesla Model S og Tesla Model X notað hraðhleðslustöðvarnar, sem eru kallaðar “Superchargers”, gjaldfrjálst - en búnaður til að nota þær er innbyggður í bifreiðarnar þegar maður kaupir þær.

Hvað varðar Model 3 bílinn gæti farið svo að bílarnir verði ekki búnir nauðsynlegri tækni til að nota hleðslustöðvarnar - sem kann að þýða að maður verði að kaupa hana aukalega til þess að geta farið á löng ferðalög um Bandaríkin.

Model 3, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, verður fyrsti fjöldaframleiddi rafmagnsbíll Tesla Motors. Þegar hafa fjölmargar forpantanir borist í bílinn - heilar 373 þúsund talsins - en framleiðsla á honum á að hefjast um lok árs 2017.