Svo virðist sem vinsældir nýja Airpnp-appsins séu að aukast dag frá degi. Appið er þannig úr garði gert að fólk skráir klósettið sitt í það. Það er allur gangur á því hvaða klósett eru skráð í appið. Það geta verið klósett heima hjá fólki eða í fyrirtækjum.

Notendur appsins, fólk sem er á ferðinni og alveg í spreng, getur síðan flett upp nærliggjandi klósettum í appinu. Sums staðar kostar ekkert að skreppa á klósettið en oftast er rukkað fyrir notkunina. Mjög missjafnt er hversu mikið er rukkað en það getur verið frá nokkur hundruð krónum upp í nokkur þúsund krónur.

Í appið eru skráð klósett víða um heim en flest eru þó í Bandaríkjunum og Evrópu. Í appinu er að finna nokkur klósett í Skandinavíu en enn sem komið er er ekkert klósett á Íslandi skráð.

Miðað við aukinn ferðamannastraum til landsins og gríðarlegar vinsældir Airbnb-síðunnar (sem er ekkert tengd Airpnp) verður líklega ekki langt að bíða þess að fyrsta klósettið á Íslandi verði skráð á Airpnp .