Míkróbrugghúsið Gæðingur-Öl tapað þremur milljóum króna á árinu 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Tekjur félagsins tvöfölduðust á milli ára og fóru úr 18 milljónum í 36 milljónir. Þess ber þó að geta að árið 2011 hófst framleiðsla ekki fyrr en í júní. ""Ég hugsa að það verði taplaust á næsta ári. Ég geri ekki ráð fyrir því núna þar sem við erum að fjárfesta mikið á þessu ári. En þetta er á réttri leið og ég er bara rólegur," segir Árni Hafstað eigandi Gæðings í samtali við vb.is.

Í rekstrarreikningi Gæðings kemur fram að mest seldi bjórinn árið 2012 var jólabjór fyrirtækisins sem stóð fyrir 7,5 milljónum af 36 milljóna króna heildarsölu. Pale Ale, Laer og Stout bjór fyrirtækisins koma þar á eftir.

Áfengisgjaldið bítur

Stærsti kostnaðarliður fyrirtækisins var áfengisgjald sem nam 11,4 milljónum. Fyrirtækið greiddi meira í áfengisgjald en laun á árinu en laun og launatengd gjöld námu samtals um 5,3 milljónum króna. Áfengisgjaldið nam samtals um 28,6% af útgjöldum fyrirtækisins. Árni segir gjöldin mjög há sem og óvægin. " Maður borgar líka gjöldin áður en maður fær reikninginn borgaðan. Töluvert áður. Enda erum við aðeins að byrja í útflutningi núna. Það er rétt að hefjast. Ég held að það sé alveg möguleiki þar og þá er náttúrulega ekkert áfengisgjald."

Árni segir aðspurður ekki um auðveldan rekstur að ræða og áfengisgjaldið hjálpi ekki til. "Það verður sennilega enginn ríkur af þessu og nokkrir fátækir Svo er það þannig að menn eru bara að drekka verra fyrir vikið. Búa þetta bara til sjálfir. En menn snúa yfirleitt blinda auganu að því," segir Árni. Aðspurður segist hann ekki sjá neinar breytinar í farvatninu hjá nýrri ríkisstjórn. "Nei, þeir ætla að hækka þetta núna um áramótin."