*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Erlent 25. janúar 2021 15:26

Borga sér 3,7 milljarða þrátt fyrir tap

Tap tískuvörufyrirtækis Beckham hjónanna jókst milli ára en fyrirtæki David héldu áfram að skila hagnaði.

Ritstjórn
Hjónin David og Victoria Beckham hafa orðið fræg hvort um sig fyrir afrek sín í fótbolta og tónlist.
epa

Félög Becham hjónanna hafa greitt þeim 21 milljón breskra punda, eða andvirði 3,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi, frá árinu 2019 þrátt fyrir mikið tap af tískufyrirtækjum Victoriu Becham.

Hagnaður fyrirtækisins David Beckham Ventures Limited sem heldur utan um vörumerki fótboltakappans lækkaði árið 2019 um 3,5 milljón punda og nam 11,3 milljónum punda það ár, eða sem samsvarar 3,7 milljörðum króna. Þrátt fyrir það námu arðgreiðslur félagsins til þeirra hjóna 14,5 milljónum punda, auk þess sem arðgreiðslur síðasta árs námu 7,1 milljarði punda.

Meðal þess sem félagið heldur utan um eru samstarfsverkefni Beckham með Adidas og Haig Club whisky, en tekjur þess jukust árið 2019 um 600 þúsund pund í 16,2 milljónir punda.

Á sama tíma hefur gengið mun verr hjá tískuvörufyrirtækinu Victoria Beckham Holdings, sem heldur utan um vörumerki kryddpíunnar fyrrverandi eins og hljómsveitin, Spice Girls, sem hún var í var kölluð upp á íslensku. Þannig jókst tap þess úr 12,5 milljónum árið 2018 í 16,6 milljónir punda árið 2019, sem þar með er sjöunda árið síðan 2008 sem tap var af rekstri félagsins.

Ástæðan er sögð vera vegna kostnaðar við húðvörufyrirtæki sem fyrirtækið á 85% í, en sala félagsins hefur samt sem áður aukist um 7% á árinu 2019. Endurskoðendur fyrirtækisins vöruðu við því að félagið væri nú háð stuðningi eigenda sinna sem gæti sett framtíð þess í hættu að því er BBC greinir frá í umfjöllun sinni.

Í apríl síðastliðnum, þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar kom höggi á reksturinn, þurfti félagið að fá 9,2 milljónir punda í lán frá eigendunum til að borga til baka lán frá HSBC bankanum vegna brota á skuldaskilmálum.