*

laugardagur, 18. janúar 2020
Erlent 28. maí 2019 18:07

Borga símreikninginn með Bitcoin

Fjarskiptarisinn AT&T tekur nú við Bitcoin og fleiri rafmyntum sem greiðslu fyrir símreikning viðskiptavina sinna.

Ritstjórn
AT&T er stærsta fjarskiptafyrirtæki heimsins.
Haraldur Guðjónsson

Bandaríski fjarskiptarisinn AT&T tekur nú við greiðslu símreikninga í formi rafmynta, samkvæmt samningi sem félagið gerði nýlega við greiðslumiðlunarfyrirtækið BitPay. The Verge segir frá.

Tilkynning fjarskiptafélagsins um málið tiltekur ekki hvaða myntir verða gjaldgengar, en á heimasíðu BitPay eru taldar upp myntir á borð við Bitcoin, Bitcoin Cash og Gemini USD. 

AT&T er fyrsta símafyrirtækið til að taka við greiðslum á þennan hátt, en ýmis önnur fyrirtæki eru þegar farin að taka við rafmyntum. Smásöluverslanirnar Whole Foods, Nordstrom og GameStop tilkynntu allar í mánuðinum að þær myndu taka við slíkum greiðslum í gegnum greiðslumiðlunarfyrirtækið Flexa.

Þess eru þó dæmi að fyrirtæki hafi sagt upp samstarfi við BitPay og hætt að taka við rafmyntum. Steam, langtum stærsta markaðstorg tölvuleikjasölu í heiminum, hóf samstarf við greiðslumiðlunarfélagið árið 2016 og tók við Bitcoin.

Aðeins ári seinna tilkynnti leikjasölufyrirtækið að samstarfinu yrði sagt upp og hætt yrði að taka við rafmyntum, vegna hárra þóknana fyrir viðskiptin, og mikilla sveifla í verði rafmyntanna.

Stikkorð: AT&T Bitcoin