Niðurgreiðsla Skipta á sambankaláni upp á 16,7 milljarða króna átti upphaflega að vera hærra, eða í kringum 20 milljarðar króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins samþykktu kröfuhafar félagsins að lækka hana til þess að gera Skiptum kleift að standa við greiðslu vegna niðurstöðu fransks gerðardóms sem nýverið komst að þeirri niðurstöðu að Síminn, dótturfélag Skipta, bæri að greiða fjarskiptafyrirtækinu Seamobile Europe 7,7 milljónir evra, um 1,3 milljarða króna, í skaðabætur vegna missis framtíðarhagnaðar.

Úrskurðurinn er talinn aðfararhæfur á Íslandi en Síminn ætlar að reyna að koma í veg fyrir það. Verði aðfararhæfið staðfest mun Síminn þó þurfa að greiða umrædda fjárhæð. Skipti er stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins. Innan samstæðunnar eru meðal annars Síminn, Míla og Skjárinn.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.