Þegar Opera Software gaf út áttundu útgáfu vafrans í apríl árið 2005 hét Jón von Tetzchner því að ef meira en milljón manns myndu hlaða vafranum niður á fjögurra daga tímabili myndi hann synda frá Noregi til Bandaríkjanna, með viðkomu hjá mömmu sinni á Íslandi til að fá sér heitan bolla af kakó. Þegar í ljós kom að múrinn hafði verið rofinn var ekki aftur snúið fyrir Jón.

„Þetta gekk nú alveg ágætlega, allavega svona í byrjun, en við lentum í smá vandræðum á leiðinni. Sá sem sendi út þetta fréttaskeyti ætlaði að vera við hliðina á mér í gúmmíbát. Svo kom gat á bátinn og hann kunni ekki að synda, svo ég þurfti að draga hann í land,“ segir Jón og hlær. „Ég get alveg sagt þér það að synda í Óslóarfirði í apríl er ekkert æðislega heitt.“

En er hægt að synda alla þessa leið?

„Ég held ég geti verið 100% viss að ég hefði ekki lifað af.“

Þannig að þú ætlar ekki að gera þetta aftur með Vivaldi vafrann?

„Æ, ég hef engin plön um það! Been there, done that. Það er hægt að gera eitthvað annað næst.“

Ítarlegt viðtal við Jón er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .