Kínverskur viðskiptamaðurinn Zhao Danyang átti hæsta tilboðið í hádegismat með ríkasta manni heims, bandaríska fjárfestinum Warren Buffet en hádegisverðurinn var nýlega boðinn upp á eBay.

Danyang mun greiða 2,1 milljón Bandaríkjadali (tæpl. 170 milljónir ísl.króna) fyrir að borða með Buffet á Smith and Wollensky steikhúsinu í New York og mun allur ágóðinn renna til góðgerðasamtaka sem hafa það að markmiði að bjóða fátækum og heimilislausum mat.

Warren Buffet hefur frá árinu 2000 boðið upp hádegisverð með sjálfum sér á eBay og hefur að sögn fréttavefs BBC safnað yfir 4 milljónum dala til góðgerðamála með þessum hætti.

Hádegismaturinn er svo sannarlega ekki ókeypis með Buffet en hann hefur þrefaldast í verði á milli ára og gott betur en á sama tíma í fyrra greiddi Mohnish Pabrai rétt rúmlega 650 þúsund dali fyrir að fá að snæða með Buffet.

Þá hefur Buffet lýst því yfir að hann muni erfa mikið af auðæfum sínum til góðgerðasjóðs í eigu Bill Gates og konu hans en fram til þessa árs var Bill Gates ríkasti maður heims þangað til Warren Buffet ýtti honum úr sessi.