Þó ljóst sé að Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni hyggist bjóða sig fram áfram er töluverð ólga innan flokksins. Eru ýmsir orðaðir við að bjóða sig fram til forystu, enda flokkurinn aldrei fengið jafnslaka kosningu í borginni eins og í síðustu kosningum og miðað við skoðanakannanir virðist það ekkert stefna í að lagast.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er nú til skoðunar í stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að einungis verði kosið um leiðtoga flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að hann sé mögulega einn þeirra sem bjóði sig fram.

Ekki tekið ákvörðun enn þá

„Ég hef íhugað þetta en ekki tekið neina ákvörðun enn þá,“ segir Borgar Þór sem verið hefur formaður SUS, en hann er sonur Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.

Aðrir sem eru nefndir mögulegir en hafa ekki tekið ákvörðun er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, auk borgarfulltrúanna Áslaugar Friðriksdóttur og Kjartan Magnússon. Enn aðrir sem hafa verið nefndir eru Eyþór Arnalds fyrrum sveitarstjóri í Ölfus, sem nýlega keypti stóran hlut í Morgunblaðinu, en hann hefur ekki tjáð sig um málið.

Ragnheiður Ríkarðsdóttir fyrrum þingmaður og bæjarstjóri í Mosfellsbæ þvertekur hins vegar fyrir að gefa kost á sér. Möguleg dagsetning fyrir annað hvort próf- eða leiðtogakjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar er 21. október næstkomandi þó ekkert hafi verið ákveðið enn þá