Seðlabanki Danmerkur hefur lækkað innlánsvexti í fyrsta skipti niður fyrir núll. Þetta þýðir að innlánseigendur þurfa að greiða fyrir að láta fjármuni liggja inni á innlánsreikningum. Innlánsvextir voru lækkaðir úr 0,05% í -0,2%. Á sama tíma voru útlánavextir lækkaðir úr 0,45% í 0,2%. Þetta kemur fram á danska vefnum Borsen.dk í dag.

Þetta er mjög athyglisvert í því ljósi að við neikvæða nafnvexti borgar það sig fyrir innlánshafa að taka peningana sína út úr bönkum og geyma þá undir koddanum, eða á öðrum stöðum þar sem þeir rýrna ekki í verði.

Ástæðan fyrir vaxtalækkuninni er sú að danski Seðlabankinn er að reyna að hægja á fjármagnsflæði til landsins. Í ljósi erfiðleika í Suður Evrópu þá hefur Danmörk þótt nokkuð öruggur staður til að geyma fjármuni á. Danir gátu til að mynda selt ríkisskuldabréf á neikvæðum vöxtum fyrir tveimur vikum síðan. Á sama tíma er danska krónan orðin vinsæl fyrir spákaupmenn. Til að stemma stigu við þessu hefur Seðlabanki Danmörku því ákveðið að lækka vextina og þannig veikja dönsku krónuna.

Að innlánsvextir séu neikvæðir er óvenjulegt í Danmörku og sést sjaldan í fjármálaheiminum. Þó eru til dæmi, þar á meðal frá Svíþjóð þegar Seðlabankinn þar lækkaði innlánsvexti niður í -0,25% og héldu því vaxtastigi í rúmlega ár.