Fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis kvittar undir meirihlutaálit nefndarinnar um að ríkisstjórninni verði falið að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að aðildarsamningur verði síðan borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tillaga ríkisstjórnarinnar um ESB-viðræður var afgreidd úr utanríkismálanefnd í morgun. Fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í nefndinni, Birgitta Jónsdóttir sem og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, rita undir álit meirihlutans með fyrirvara.

Atkvæðagreiðsla um eða eftir helgi

Í álitinu er að sögn formanns nefndarinnar, Árna Þórs Sigurðssonar, m.a. hnykkt  á því að viðræðurnar við ESB verði í samráði við Alþingi. Ennfremur að sérstakur samráðshópur hagsmunaaðila muni eiga aðkomu að samninganefndum í tilteknum málum.

Gert er ráð fyrir að síðari umræða um málið fari fram á Alþingi á morgun en lokaatkvæðagreiðslan gæti dregist fram á mánudag.

Árni Þór segir að verði tillagan samþykkt á Alþingi gætu aðildarviðræður hafist á næsta ári. Þær gætu hins vegar tekið þrjú ár.