Tilraun Finna til að tryggja atvinnulausum öruggar tekjur í tvö ár leiddi ekki til þess að þeir færu að finna sér nýja vinnu, en þeir voru hins vegar hamingjusamari og heilbrigðari.

Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn á þátttakendum í tilraunum stjórnvalda í Finnlandi með borgaralaun þar sem 2.000 atvinnulausir Finnar fengu fasta mánaðarlega greiðslu upp á 560 evrur. Það samsvarar rétt tæplega 77 þúsund krónum miðað við núverandi gengi, en tilraunin stóð yfir frá janúar 2017 til og með síðastliðins desembermánaðar.

Markmiðið með tilrauninni var að athuga hvort tryggt öryggisnet myndi hjálpa atvinnuleysingjum að finna vinna, og styðja við þau í atvinnulífi sem einkennist af sífellt meiri óöruggri verktakavinnu. Eins og Viðskiptablaðið hefur þó sagt frá ákváðu finnsk stjórnvöld fyrir rúmu ári að hætta tilrauninni en þá var stefnan þess í stað að taka upp einhvers konar vinnuskyldu.

Var Finnland fyrsta landið til að gera tilraun með borgaralaun en ýmis lönd og stjórnmálahópar, sem og hagfræðingar, hafa lagt til útgáfur af svona kerfi. Hafa rökin oft verið að aukin sjálfvirkni muni gera sífellt fleira fólk atvinnulaust sem og það letji fólk til verðmætasköpunar að þurfa að hafa áhyggjur af tekjum.

Þannig geti fólk nýtt tekjurnar til að læra það sem þarf til að taka þátt í hagkerfinu og sagði Miska Simanainen ein af starfsmönnum Kela, tryggingarstofnunar landsins, sem stýrði verkefninu markmið ríkisstjórnarinnar hafa verið að kanna hvort það myndi virka.

Stuðningsmenn og andstæðingar bæði hægra og vinstra megin

Niðurstaðan virðist skýr, þó endanleg skýrsla verði ekki birt fyrr en 2020. Hópurinn sem fékk borgaralaunin reyndist í engu líklegri til að finna sér vinnu heldur en samanburðarhópur atvinnuleysingja sem ekki fengu greiðslurnar. Hins vegar mældist aukin hamingja meðal þeirra sem fengu greiðslurnar og jafnvel betri líkamleg heilsa að því er Bloomberg segir frá.

Frétt BBC um málið rekur fyrstu hugmyndirnar um borgaralaun til Útópíu eftir Thomas More, sem kom út 1516, fyrir 503 árum síðan. En hagfræðingar bæði á vinstri væng stjórnmálanna, sem og hægri, hafa velt upp hugmyndum um borgaralaun í mörgum mismunandi útgáfum, stundum með skerðingum. Meðal stjórnmálaafla á vinstrivængnum þá hafa m.a. Píratar hér á landi sett hugmyndina á oddinn, en einnig hefur Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skoðað útgreiðslu persónuafsláttar . Hann hafði þó áður sagt borgaralaun „Það alvitlaustasta sem ég hef heyrt.“

Meðal hagfræðinga sem kenndir hafa verið við hægri ás stjórnmálanna sem hafa verið hrifnir af hugmyndinni má nefna frjálshyggjumanninn Milton Friedman. Með útgáfu sinni sem hann kallaði neikvæðan tekjuskatt, fengju allir einhvers konar persónuafslátt sem myndi greiðast út að hluta eða heild ef fólk hefði ekki samsvarandi tekjur. Skerðingarhlutfallið væri þá í raun sama og tekjuskattsprósentan fyrir þá sem hefðu hærri tekjur. Vildi hann að kerfið kæmi í stað allra annarra velferðarkerfa.

Stjórnvöld í Ítalíu vinna einnig að því að koma á slíku kerfi , en það hefur kostað töluverð átök við Evrópusambandið því útgjöldin sem því myndu fylgja myndu valda því að hallarekstur landsins myndu brjóta fjárlagareglur ESB.

Hér má skoða skoðanapistla um borgaralaun:

Hér má lesa frekari fréttir um borgaralaun: