Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindamálaráðherra, segir að það mat dómara, um að frekari niðurskurður hjá dómstólunum geti haft alvarlegar afleiðingar, sé rétt. Alvarlegt ástand hefði getað skapast ef starfsemi dómstólanna hefði verið skorin niður enn frekar á sama tíma og starfsfólk þeirra hefði verið undir fordæmalausu álagi.

„Það var fljótt fyrirsjáanlegt að mikið álag myndi skapast og við því hefur þegar verið brugðist. Þrátt fyrir það er staðan erfið. Það má alltaf færa rök fyrir því að dómstólarnir þurfi meira fjármagn. Við höfum þegar tekið ákvörðun um að fjölga héraðsdómurum um fimm á grundvelli tillagna þar um en þeim gæti fjölgað um allt að tíu í viðbót, strax á næsta ári.Kostnaðurinn við þessa eflingu dómstólanna er ekki mikill að mínu mati, hvernig sem á það er litið. Líklega er kostnaðurinn um 450 milljónir á ársgrundvelli, þegar fjölgun Hæstaréttardómara um þrjá er tekin með í reikninginn. Þessu verður að miklu leyti mætt með hækkun gjalda, s.s dómsmálagjalds. Ef þetta er kostnaðurinn við það að halda uppi traustu réttarríki, á tímum eins og við lifum nú, þá finnst mér hann satt að segja ekki mikill. Borgararnir verða að geta reitt sig á réttarríkið og að mál fái sanngjarna og vandaða málsmeðferð.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.