Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum á föstudag að taka tilboði frá Nýja Kaupþingi í allt stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki stjórnar Nýja Kaupþings sem sett var á föstudag.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns .

Fram kemur að Fjármálaeftirlit og Samkeppnisstofnun þarf einnig að samþykkja samninginn sem og lánveitendur SPM.

„Með þessu segja fulltrúar Nýja Kaupþings og Borgarbyggðar að búið sé að draga úr óvissu varðandi afdrif Sparisjóðs Mýrasýslu og að kaupin séu þannig liður í endurskipulagningu sjóðsins,“ segir í frétt Skessuhorns.

Fram kemur að bókfært verð stofnfjár sveitarfélagsins í sjóðnum var rúmar 500 milljónir króna en eins og fram hefur komið hefur afkoma sjóðsins verið afar slæm á þessu ári og eigið fé í raun uppurið.

Fyrir gjaldþrot Kaupþings lá fyrir tilboð um kaup á nýju stofnfé í sjóðnum en það hafði ekki fengist staðfest af Fjármálaeftirlitinu áður en til gjaldþrots bankans kom.

Páll S Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar segir í frétt Skessuhorns samkomulagið vera hagstætt fyrir sveitarsjóð en með því sé rekstur sparisjóðsins væntanlega tryggður sem og hagsmunir viðskiptavina.

„Menn voru auðvitað líka að verja hagsmuna sveitarsjóðs Borgarbyggðar. Við fáum krónur í kassann þó ég geti ekki gefið uppi á þessu stigi hversu margar þær verða,” sagði Páll í samtali við Skessuhorn.