Sveitarstjórn Borgarbyggðar íhugar málsókn gegn Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þess hvernig staðið hefur verið að úthlutunum úr sjóðnum. Frá þessu greinir RÚV .

Að sögn Gunnlaugs A. Júlíussonar, sveitarstjóra Borgarbyggðar, hefur talsvert fé safnast upp í Jöfnunarsjóðnum á síðustu árum, sem ekki hefur verið úthlutað í samræmi við reglur sjóðsins. Það hafi valdið Borgarbyggð fjárhagslegum skaða og því ætli sveitarfélagið að leita réttar síns.

Ákveðið hlutfall skatttekna ríkis og sveitarfélaga rennur inn í jöfnuðarsjóðinn, sem síðan er úthlutað aftur til sveitarfélaga til að jafna mismunandi útgjaldaþörf þeirra. Frá árinu 2014 hefur sérstakur bankaskattur skilað auknu fé inn í Jöfnunarsjóðinn og að sögn Gunnlaugs hafa verið deilur um hvernig úthluta skuli þessu aukna fé. Fjölmennari sveitarfélög vilja að úthlutað verði eftir hlutdeild í heildarútsvari á meðan tekjuminni sveitarfélög vilja úthluta fjármununum eftir gildandi reglum sjóðsins, sem snúa m.a. að því að jafna tekjumun sveitarfélaga.

Þann 1. júní síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin lagabreytingu sem leysa átti deilur um fjárúthlutun sjóðsins vegna bankaskattsins og var ákveðið að fara milliveg í málinu. Helmingi skyldi úthlutað í samræmi við gildandi reglur sjóðsins og hins vegar myndi Jöfnunarsjóður greiða út sérstakt 650 milljóna króna framlag á árinu, í samræmi við hlutdeild sveitarfélaga í heildarútsvari.

Þessi niðurstaða vakti litla lukku meðal sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Gunnlaugur segir að öllu fé hefði átt að úthluta í samræmi við reglur sjóðsins, ekki bara helmingnum. Hann telur að Borgarbyggð hafi orðið af „nokkuð mörgum milljónum“ vegna þessa og verður réttarstaða sveitarfélagsins í málinu könnuð. Mun sveitarfélagið eftir atvikum hefja mál gegn Jöfnunarsjóðnum vegna þess hvernig staðið hefur verið að úthlutunarmálum síðustu ár