Arion banki hefur samþykkt kauptilboð Borgarbyggðar í húsnæði bankans að Digranesgötu 2 í Borgarnesi. Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, staðfestir þetta við Skessuhorn . Mun starfsemi ráðhúss sveitarfélagsins, sem í dag er til húsa að Borgarbraut 14, flytjast yfir í húsnæðið á Digranesgötu.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum setti bankinn húsnæðið að Digranesgötu á sölu og var ásett verð 260 milljónir króna. Viðskiptablaðið hefur að svo stöddu ekki upplýsingar um kaupverð eignarinnar.

Þórdís segir tilboðið þó háð fyrirvörum um ástandsskoðun á húsinu, en hún vonist til að það komi vel út. Hún kveðst gera ráð fyrir því að Arion banki verði áfram með starfsemi í húsinu.

„Við erum að fara úr gömlu húsnæði sem ekki var hannað fyrir okkar starfsemi yfir í húsnæði sem við munum innrétta sem best að störfum okkar og það er mjög spennandi,“ er haft eftir Þórdísi í Skessuhorni.

Húsnæðið að Borgarbraut, sem Þórdís vísar til og hefur þegar verið kynnt til leiks, hýsti á sínum tíma Sparisjóð Mýrasýslu. Keypti sveitarfélagið húsnæðið af sparisjóðnum er sparisjóðurinn flutti starfsemi sína í Digranesgötu 2 árið 2005. Húsnæðið að Digranesgötu var einmitt byggt þetta sama ár undir bankastarfsemi sparisjóðsins.

Sparisjóður Mýrasýslu sameinaðist svo Arion banka árið 2009 og færðist eignarhald húsnæðisins þar með yfir til bankans.

Í skriflega svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um söluna á húsnæði bankans í Borgarnesi segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, að húsnæðið í Borgarnesi hafi einfaldlega verið of stórt fyrir starfsemi bankans. Aðrir séu því betur til þess fallnir að leigja stærstan hluta húsnæðisins út.