Borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem og varaborgarfulltrúi F-listans og óháðra eru á skrifstofu borgarinnar við Tjarnargötu og bíða þar í óvissu um skipan mála í stjórn Reykjavíkurborgar.

„Það hefur ekkert verið haft samband við mig," sagði Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-listans og óháðra, um þær fregnir að meirihlutasamstarfi sjálfstæðismanna og Ólafs F. Magnússonar væri lokið.

Jakob Frímann Magnússon, aðstoðarmaður Ólafs F., sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag að Ólafur F. myndi ekki tjá sig við fjölmiðla í dag.

Óstaðfestar fregnir herma að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fundi nú um samstarf sitt og stefnu í borginni og að tilkynnt verði um breytingarnar á stjórn borgarinnar síðar í dag.

Hvorki náðist í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita sjálfstæðsmanna, né Ólaf F. Magnússon borgarstjóra við vinnslu þessarar fréttar.