Kjartan Magnússon borgarfulltrúi gagnrýnir að sá vettvangur sem valinn hefur verið til þess að kynna hugmyndir um skuldaniðurfellingar sé Harpa. Á fésbókarsíðu sinni vísar Kjartan í fyrirsögn fréttar á mbl.is þar sem fjallað er um blaðamannafund Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar sem fer fram í Hörpu klukkan fjögur á morgun. Fyrirsögn fréttarinnar er „Leyndinni aflétt í Hörpu“

Á fésbókarsíðu sinni segir Kjartan „Þegar ég sá þessa fyrirsögn hélt ég fyrst að nú ætti loks að upplýsa almenning um heildarbyggingarkostnað Hörpu. Svo var ekki. En telja menn í alvöru að þetta hús sé heppilegur vettvangur til að kynna stórtækar aðgerðir í ríkisfjármálum?“

Kjartan hefur um margra mánaða bil óskað eftir upplýsingum um það hver heildarkostnaður við byggingu Hörpu er, án þess að honum hafi orðið ágengt. Hann er eini borgarfulltrúinn sem ávallt greiddi atkvæði gegn byggingu hússins.