Töluverður viðsnúningur var á rekstri Borgarleikhússins á rekstrarárinu 2016-2017 en félagið skilaði 89 milljóna króna rekstrarafgangi. Þetta var kynnt á aðalfundi Leikfélags Reykjavíkur, rekstraraðila Borgarleikhússins, þann 30. október.  Á rekstrarárinu 2015-2016 var ríflega tólf milljóna tap af rekstrinum en 2014-2015 var tæplega 10 milljóna hagnaður. Þannig jókst heildarvelta félagsins  um 14% í ár en rekstrargjöld um 7% á leikárinu 2016-2017. En það er tekjuaukning og átti sér stað árið á undan en það ár, leikárið 2015-2016, jukust gjöld um tæp 16%.

Í fréttatilkynningu segir að niðurstaðan hafi fyrst og fremst ráðist af velgengni þeirra leikverka sem voru í sýningu hjá leikfélaginu og góðri miðasölu sem jókst um 20% milli ára. Þá segir að einnig hafi komi fram jákvæð áhrif af hagræðingu í rekstri og auknum tekjum af veitingasölu.

Á síðasta ári var gert samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur um að stefna því að styrkja stöðu félagsins með því að auka eigið fé þess. Á rekstrarárinu 2015-2016 hafði eigið fé lækkað úr tæpum 55 milljónum niður í rúmar 38 milljónir eða um tæp 30% en ljóst má vera að afkoma félagsins mun styrkja eiginfjárstöðu þess á ný.

Á aðalfundinum voru einnig þrír nýir heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur tilnefndir, þau Birgir Sigurðsson, Inga Jón Þórðardóttir og Pétur Einarsson.