Innviðagjald fyrir 15 þúsund krónur á hvern fermetra verður innheimt af nýjum íbúðum í Furugerði við Bústaðaveg sem samsvarar um 1,5 milljónum króna á hverja 100 fermetra íbúð að því er Morgunblaðið greinir frá.

Uppbygging lóðarinnar, sem liggur á milli fjölbýlishúsanna sem snúa út að Bústaðavegi og vegarins sjálfs, er liður í þéttingaráformum Reykjavíkurborgar.

Innviðagjaldið er meðal annars hugsað til að mæta hluta af kostnaði við uppbyggingu innviða á svæðinu og vegna Borgarlínu, en í frétt Morgunblaðsins segir að gatnagerðagjöld í Reykjavík séu umtalsvert lægri en í Hafnarfirði.

Borgin fær eina íbúð

Eigandi lóðarinnar er Hafsteinn Bao Duong og félagið EA11 ehf., en alls er stefnt að því að á svæðinu verði 35 til 37 íbúðir byggðar, en lóðarhafi hefur gert samkomulag við borgina um að greiða henni 39,29 til 49,29 milljónir króna vegna hlutdeildar í innviðakostnaði.

Endanleg greiðsla fer eftir byggingarmagini, en jafnframt samþykkir lóðarhafi að selja Reykjavíkurborg eina íbúð á lágmarksverðinu, 39,29 milljónir króna. Íbúðin yrði 65 fermetrar og án bílastæðis, en með 5 fermetra geymslu. Auk þess hafa Félagsbústaðir kauprétt á 5% íbúða sem og skilyrt er lágmark 10% íbúa verði leiguíbúðir.

Hafa íbúar í Furugerði mótmælt áformunum og stofnað aðgerðarhóp til að berjast gegn þeim, en á hluta svæðisins var lengi vel gróðrarstöð rekin í lágreistu gróðurhúsi.