Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkur, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að mjög líklegt væri að strætisvagnar verði notaðir til að aka eftir borgarlínunni svokölluðu en ekki léttlestar. Kostnaður við léttlestar er að sögn Þorsteins tvöfalt til þrefalt meiri og anni svipuðum farþegafjölda.

Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að áætlaður kostnaður við borgarlínuna gæti orðið á bilinu 44 til 72 milljarðar. Þorsteinn sagði á Rás 2 í morgun að innan skamms verði tillaga að nýju svæðisskipulagi lögð fram þar sem gert verði ráð fyrir borgarlínunni. Sveitarfélögin geti svo í kjölfarið breytt aðalskipulagi í takt við það, kjósi þau svo. Fyrsti áfanginn gæti að sögn Hermanns kostað 25 milljarða fyrir 25 kílómetra. Hann segir dæmi erlendis sýna að uppbygging sem þessi geti tekið tvö til þrjú ár. Það þýði að verði ákvörðun tekin um að hefjast handa núna væri hægt að byrja að keyra árið 2021 eða 2022.