*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Innlent 27. maí 2018 19:13

„Borgarlínan er 19. aldar fyrirbæri“

Formenn Miðflokksins og Samfylkingar tókust á um það hvort væri eldra, lestakerfi eða hraðbrautir eins og Sundabraut.

Ritstjórn
Borgarlínan er kölluð „crazybusiness“ af útlendingum að mati Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar formanns MIðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins.
Gígja Dögg Einarsdóttir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Logi Einarsson formaður Samfylkingar áttu í heitum orðaskiptum í Silfrinu á RÚV í morgun vegna hugmynda um Borgarlínu, sem fráfarandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt áherslu á.

Umræðan átti sér stað morguninn eftir sveitarstjórnarkosningarnar, eftir æsispennandi nótt þar sem fulltrúar flokkanna í baráttusætum höfðu verið inn og út úr borgarstjórn alla nóttina.

Borgarlína er hugmynd sem byggir á almenningssamgöngum sem fari eftir föstum fyrirframákveðnum sérakgreinum líkt og lestir, aðskildum frá annarri umferð, þó í nýjustu útgáfum sé miðað við að nota strætisvagna en ekki hefðbundnar lestir eða sporvagna. Er þá hugmyndin sett þannig fram að vagnarnir hagi sér líkt og lestir eða sporvagnar, sem víða má enn sjá í borgum, t.a.m. í Austur-Evrópu, þar sem þeim var komið á fót á 19. öld.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Uber þjónusta og önnur deiliþjónusta þegar dregið úr notkun dýrra almenningssamgöngukerfa víða um heim, og hefur borgarstjórnin í Washingtonborg til að mynda brugðist við með því að skattleggja deiliþjónustur eins og Uber sérstaklega til að greiða niður neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar.

Borgarlínan sameinar og sundrar

Eitt af þeim málum sem tekist var á um í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum á höfuðborgarsvæðinu var hvort það væri réttlætanlegt að eyða þeim 70 milljörðum króna sem fyrstu áætlanir gera ráð fyrir að uppsetning slíks kerfis kosti. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tapaði meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar meirihluta sínum í kosningunum í gær, og stóð Sjálfstæðisflokkurinn uppi sem stærsti flokkurinn í borginni.

Bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins bentu á í umræðum um málið að ekki væri gert ráð fyrir neinu fjármagni frá ríkinu í verkefnið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna lagði þó áherslu á nauðsyn verkefnisins út frá umhverfissjónarmiðum en Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður þriðja ríkisstjórnarflokksins, Framsóknarflokksins sagði umræðuna ekki tímabæra fyrr en afstaða nýju sveitarstjórnanna á höfuðborgarsvæðinu væri orðin ljós.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, sem margir segja að sé nú í oddaaðstöðu til að koma annað hvort í stað Bjartrar framtíðar í núverandi meirihluta eða semja við flokka sem kölluðu á breytingar í borginni sagði flokkinn fylgjandi verkefninu.

Þrátt fyrir hvatningu bæði Loga sérstaklega og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, talsmaður Pírata, höfðu í þættinum lagt áherslu á það að flokkarnir sem væru hrifnir af hugmyndum um borgarlínu ættu að semja um nýjan meirihluta. Þorgerður Katrín benti þó á að það væru fleiri hlutir sem skiptu flokkinn máli eins og ráðdeild og að hlúð væri að umhverfi fyrirtækja í borginni.

Sigmundur vildi verða álitsgjafi

„Má ég snöggvast vera álitsgjafi í þessu máli,“ sagði Sigmundur Davíð þegar hann lagði orð í belg um vænda oddaaðstöðu Viðreisnar í komandi meirihlutaviðræðum. Eftir að Þorgerður Katrín hafði hlegið með honum og sagt hann frjálsan til þess núna eftir að hafa lagt af 20 kíló, þá lagði Sigmundur Davíð á það áherslu að það þyrfti að sýna sig að það skipti einhverju máli að kjósa Viðreisn, að það þýddi breytingar, en ekki sama stefnan áfram.

Þá skaut Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra inní og kallaði þetta fjórðu gráðu viðreynslu. Þáttastjórnandinn spurði Sigmund hvort hann væri að leggja til að Viðreisn færi með Miðflokknum og kannski Sjálfstæðisflokki. „Jájá, til dæmis,“ sagði þá Sigmundur Davíð sem benti á að Miðflokkurinn hefði getað náð tveimur mönnum ef hann hefði fengið 0,6 prósentustigum meira.

Vildi að röflinu um borgarlínu yrði hætt

Inga Sæland formaður annars flokks sem náði inn manni, með eilítið fleiri atkvæði en næsti flokkur, Framsóknarflokkur, sem ekki náði inn eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, sagðist tilbúinn að vinna í báðar áttir.

„Ef menn geta farið að hætta að röfla um þessa borgarlínu og þetta rugl sem er ekki inn á borðinu, sem kosta allt of mikla peninga,“ sagði Inga sem sagiði forgangsröðunina kolranga og þess í stað ætti að taka utan um fólk í borginni sem ætti bágt.

„Og ætla kannski að leggja auknar álögur á borgarbúa sem þegar eru að greiða hæsta mögulega útsvar sem lagalega er hægt að slengja á þá, við kærum okkur ekkert um neitt slíkt.“

Sagði útlendinga kalla hugmyndina um borgarlínu bilaða

Eftir að Þórhildur Sunna fullyrti að sveitastjórnir í kringum Reykjavík styddu borgarlínuna og sagði hana mikilvægt umhverfismál sagði Sigmundur Davíð eins og áður sagði að enginn væri að fara að setja peninga í hana.

„Enda er þetta það sem útlendingar kalla „crazybusiness.“ Að fara að byggja þessa borgarlínu. Að reyna að leysa umferðarvandann á höfuðborgarsvæðinu með því að þrengja að umferðinni, og reka tvöfalt kerfi í almenningssamgöngum,“ sagði Sigmundur sem vildi meina að þetta virkaði ekki ef bara grunnþættirnir væru skoðaðir á málinu..

„En hvað með það, það er búið að eyða hérna miklum tíma að rífast um eitthvað sem er ekki að fara að gerast, því það er ekki til fjármagn í þetta og auðvitað miklu skynsamlegra að nýta þetta gífarlega fjármagn sem færi í þetta í alvöru lausnir, samgöngulausnir sem virka fyrir höfuðborgarsvæðið.“

Þá hlakkaði í Loga og hló við, en hann vildi meina að hugmyndir Miðflokksins, sem meðal annars hefur lagt áherslu á Sundabraut sem tengdi strandlengjuna upp á Kjalarnes, og um Geldinganes. Kallaði hann fram í að þetta væru „Hundrað ára gamlar hugmyndir.“ 

Þá sagði Sigmundur, í gegnum neitanir Loga sem reyndi að grípa frammi í fyrir honum: „Borgarlínan er einmitt 19. aldar fyrirbæri.“