Innviðaráðuneytið skilaði inn svari við seinni fyrirspurn ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um reikningsskil Reykjavíkurborgar vegna matsaðferða Félagsbústaða á félagslegu húsnæði í lok síðasta mánaðar. Ráðuneytið ver reikningsskil borgarinnar en óskar þó eftir að ræða málið nánar á næsta pakkafundi ESA.

Í byrjun febrúar óskaði ESA eftir frekari rökstuðningi frá innviðaráðuneytinu vegna reikningsskila borgarinnar og þá sérstaklega um skilgreiningu Félagsbústaða á félagslegu húsnæði sem „fjárfestingareign“. Í bréfinu var vakin athygli á túlkun Alþjóðareikningsskilaráðsins (IASB) á fjárfestingareign samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila  („IPSAS“), nánar tiltekið IPSAS 16 staðlinum. Þar sé beinlínis tekið fram að eignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði, en sem einnig skapa tekjur, þrátt fyrir að leiga sé undir markaðsvirði, séu talin dæmi um eignir sem falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“.

Sjá einnig: 70 milljarða bókhaldsvilla?

Innviðaráðuneytið segir að EES-samningurinn kveði ekki á um að sveitarfélög beri að nota annaðhvort IAS, alþjóðlegan reikningsskilastaðal, eða IPSAS, alþjóðlegan reikningsskilastaðal fyrir opinbera aðila. Þar að auki séu staðlarnir túlkaðir af tveimur mismunandi reikningsskilaráðum, IASB og IPSASB. Þar sem Félagsbústaðir hafa gefið út skráð skuldabréf beri félaginu að styðjast við IAS. IAS 40 staðallinn heimili fyrirtækjum að velja á milli gangvirðis- eða kostnaðarmats og Félagsbústaðir hafi valið fyrri matsaðferðina.

Ráðuneytið telur að túlkun Alþjóðareikningsskilaráðsins (IASB) á IPSAS 16 staðlinum, þar sem tekið er fram að félagslegt húsnæði falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“, eigi ekki við í tilviki Félagsbústaða. IPSAS staðlarnir eigi ekki við um hlutafélög.

Viðhorf ESA villandi að mati borgarlögmanns

Reykjavíkurborg sá sig knúna til að skila inn eigin athugasemdum vegna fyrirspurnar ESA. Borgin segir að ESA hafi „á óviðeigandi hátt“ vísað í túlkun IASB, sem hafi raunar verið túlkun IPSASB, á „fjárfestingareign“ undir IPSAS 16 staðlinum. Borgin telur viðhorf ESA til túlkunar á IAS 40 staðlinum, út frá IPSAS 16, villandi og að túlkunin eigi sér ekki lagalega stoð í EES-samningnum.