Borgarplast hefur selt húseignir sínar á Seltjarnarnesi og í Borgarnesi og flytur starfsemi sína á einn stað að Völuteigi 31 -- 31a í Mosfellsbæ. Guðni Þórðarson framkvæmdarstjóri Borgarplasts segir að gott verð hafi fengist fyrir báða húseignirnar sem seldar voru.

"Einkum á Seltjarnarnesi en þar sem lóðaverð er hátt. Núverandi húsakynni Borgarplasts á Seltjarnarnesi verða rifin og lúxus fjölbýlishús fyrir nýríka Íslendinga byggð á lóðinni," segir Guðni í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Á nýja staðnum mun starfsemin vera í tveimur aðskildum byggingum á 4.500 m2 gólffleti og 15.000 m2 lóð.

Að sögn Guðna gáfu mörg sveitafélög sig fram og buðu fyrirtækinu ýmis konar kostakjör og landrými að vild þegar það spurðist út að Borgarplast hygðist flytja alla starfssemi sína á einn stað. "Mosfellsbær var að vísu ekki í þeim hópi, heldur völdu forráðamenn Borgarplasts fyrirtækinu þar stað. Viðtökurnar í Mosfellsbæ hafa líka verið góðar og hlýlegar. Auk þess sem öll afgreiðsla á erindum sem að flutningunum lutu gengu vel fyrir sig."

Tækjakostur endurnýjaður

Borgarplast hóf starfsemi árið 1971 að Þórólfsgötu 7 í Borgarnesi og framleiddi í fyrstu frauðplast til húsaeinangrunar. Tíu árum seinna var verksmiðjan flutt að Sólbakka 6 í Borgarnesi og tveimur árum síðar var hverfisteypuverksmiðja sett upp í Vesturvör 27 í Kópavogi. Árið 1988 var sú starfsemi flutt að Sefgörðum 3 á Seltjarnarnesi og hefur verið þar síðan. Þar eru jafnframt höfuðstöðvar fyrirtækisins og þar vinna um 40-50 manns.

Guðni segir að í Borgarnesi er ennþá framleitt frauðplast til einangrunar undir merki Borgarplasts ásamt frauðplastkössum til flutninga á ferskum fiski með flugvélum til útlanda. "Þar eru einnig eru þar framleiddar ýmsar vörur fyrir byggingariðnað en Borgarnes-verksmiðjan flyst að Völuteig 31 í Mosfellsbæ um mitt ár 2006. Tækjakostur verður að miklu leiti endurnýjaður og sjálfvirkni og afköst stóraukin. Einnig verður vöruframboð aukið til muna."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.