Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, hefur sent öllum þingmönnum bréf þar sem hann skorar á þá að grípa inn í úrskurð kjararáðs.

Borgarstjóri segir m.a. í bréfinu að samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingar um þróun kjaramála sé í fullkomnu uppnámi vegna úrskurðarins.

Bréfið hljóðar svona:

„Ágæti þingmaður.
Það hefði verið óskandi að geta með bréfi þessu látið nægja að óska þér til hamingju með kjörið og bera fram óskir um gott samstarf. Í ljósi úrskurðar kjararáðs um hækkun á launum þingmanna, ráðherra og forseta Íslands get ég þó ekki látið hjá líða en að skora á þig, nýtt Alþingi og ríkisstjórn að gera það að sínu fyrsta verki að grípa inn í þennan úrskurð.

Það að laun ráðamanna hækki langt umfram þær línur sem lagðar hafa verið varðandi kjaraþróun í landinu - í nafni stöðugleika, er bæði óréttlátt og rangt – og má ekki standa.

Ég vona að allir geri sér grein fyrir alvarleika málsins og hvað er í húfi. Í mínum huga er samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingar um þróun kjaramála í fullkomnu uppnámi ef ekkert verður að gert. Þá er stöðugleiki úr sögunni og allir tapa. Það er augljóst mál.

Að lokum vil ég ítreka hamingjuóskir með kjör þitt og sæti á Alþingi. Ég óska þér velfarnaðar og vonast eftir góðu samstarfi í þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru á nýhöfnu kjörtímabili.“

Þá hefur borgarstjóri farið þess á leit við skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar að laun kjörinna fulltrúa í borgarstjórn að honum meðtöldum hækki ekki í samræmi við úrskurðinn frá 1. nóvember en grunnlaun borgarfulltrúa eru 80% af þingfararkaupi auk þess sem laun borgarstjóra miðast við laun forsætisráðherra samkvæmt ráðningarbréfi hans sem borgarstjórn samþykkir hverju sinni.