Boðaður fundur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Geirs H. Haarde forsætisráðherra um orkumál hefur enn ekki verið haldinn. Upphaflega stóð til að fundurinn yrði haldinn í byrjun desember. Honum var hins vegar frestað vegna anna á þingi, að sögn Guðmundar Steingrímssonar, aðstoðarmanns borgarstjóra. Jólin settu síðan strik í reikninginn eftir það.

Dagur óskaði eftir fundinum til að fá skýrari mynd af áformum stjórnvalda í orkumálum. “Þótt ekki fengist önnur niðurstaða af þessum fundi en sú að forsætisráðherra staðfesti það sem hann hefur verið að segja í fjölmiðlum að ríkisstjórnin stefni að því að auðlindir verði í almenningseigu og almenningsveitur verði í almenningseigu, þá er það býsna mikill árangur og mikið veganesti inn í frekari viðræður okkar við meðeigendur okkar í Hitaveitu Suðurnesja,” sagði borgarstjóri meðal annars í samtali við Viðskiptablaðið fyrir jól.

Guðmundur Steingrímsson sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að vonir stæðu til að hægt verði að halda fundinn mjög fljótlega.