Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði á borgarstjórnarfundi nú rétt í þessu að Orkuveita Reykjavíkur væri í „gífurlega miklum vanda“ fjárhagslega. Þetta kom fram í máli Jóns þegar hann var að svara spurningum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, er vörðuðu ummæli stjórnarformanns OR Haraldar Flosa Tryggvasonar í Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Ekki hefur enn verið farið yfir stöðu þess í nákvæmisatriðum, en þó hefur komið fram í umræðunum að erfiðlega hafi gengið að endurfjármagna lán að fullu.

Sagði Hanna Birna það alvarlegt mál ef þau sjónarmið Haraldar Flosa réðu för í fyrirtækinu. Í Morgunblaðinu var haft eftir Haraldi að hann teldi „að borgaraábyrgð sem tryggt hefur greiðan aðgang að ódýru fjármagni hafi stuðlað að óheppilegri fjárfestingagleði.“

Jón sagði að ummæli Haraldar Flosa væru hugsanlega óheppileg, en þau hefðu þó, að hans mati, verið rangtúlkuð.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að ummæli Haraldar Flosa hefðu þegar valdið titringi í viðkvæmum viðræðum við erlenda banka. Kjartan sagði það ekki vera hægt að umgangast OR af einhverri léttúð.

Umræða stendur nú yfir í borgarstjórn um málefni OR.