Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segir að sú tillaga sem lögð hafi verið fyrir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í gær hafi verið gerð í fullu samráði við alla borgarfulltrúa meirihlutans. Hann segir enn fremur að tillagan sé í fullu samræmi við skoðanir sínar á málinu og niðurstöðu þverpólitísks stýrihóps um málefni Reykjavík Energy Invest.

Auk þess sé hún í anda málefnasamnings meirihlutans, þ.e.a.s. að eignarhald orkulinda og Orkuveitunnar eigi að vera í höndum almennings.

Ólafur kvaðst í samtali við Viðskiptablaðið í gær vonast til þess að línur varðandi REI myndu skýrast eftir fund Orkuveitunnar í gær. „Ég vænti þess að línur verði skýrari og meintar misvísandi skoðanir borgarfulltrúa verði af borðinu."

Á umræddum fundi lagði Kjartan Magnússon, stórnarformaður OR, fram tillögu um að úttekt yrði unnin á REI og verðmat gert á verkefnum þess. Afgreiðslu tillögunnar var þó frestað að beiðni fulltrúa minnihlutans í stjórn OR.

Þegar Ólafur er spurður hvort hann sé hlynntur því að peningar Orkuveitunnar séu notaði í útrásarverkefni á borð við verkefni REI, svarar hann: „Ég er ekki hlynntur því að Orkuveitan fari í aukin áhættuverkefni erlendis, nei. Hún á fyrst og fremst að einbeita sér að þeim verkefnum sem hún á að sinna, en hugsanlega einnig að nýta þekkingu sína og aðstöðu til einhverra verkefna án þess að fara út í áhættufjárfestingar erlendis."

Ólafur segir aðspurður að ferð Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns OR og REI, og fleiri til Afríku nýverið hafi ekki verið farið út í nýjar áhættufjárfestingar. „Ég met stöðuna sem svo að þannig hafi það ekki verið."

Ætla ekki að endurtaka mistök fyrri meirihluta

Spurður hvort hann sé enn sammála niðurstöðum stýrihópsins um REI svarar Ólafur:: „Ég er sammála öllu sem þar kemur fram enda snýst niðurstaðan í meginatriðum um opna og lýðræðislega stjórnsýslu sem ég hef lagt ríka áherslu á  - einnig um að orkufyrirtæki og orkuauðlindir verði áfram í eigu almennings. Ég vil ekki að eignarhaldið verði blandað."

Ólafur segir að síðustu að enginn borgarfulltrúi meirihlutans ætli að endurtaka þau mistök sem urðu fyrsta meirihlutanum að falli á síðasta ári, en aðspurður segir hann að það sem hafi orðið þeim meirihluta að falli hafi verið skortur á samráði og nægilega vönduðum og lýðræðislegum vinnubrögðum. „Svarið er fullt samráð, fullt umboði, opin og lýðræðisleg stjórnsýsla og að koma í veg fyrir fyrstu skref af einkavæðingu Orkuveitunnar, sem greinilega var hafin."