Úr úttekt Viðskiptablaðsins á fjárhag Reykjavíkurborgar

Í skýrslu fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar eru viðraðar áhyggjur af því að rekstrarkostnaður við grunnþjónustu borgarinnar hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni. Þannig eru laun og annar rekstrarkostnaður nú orðin 123% af hlutfalli skatttekna.

Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, segir að bregðast þurfi við þessari stöðu. „Málaflokkar ættu að vera fullfjármagnaðir af skatttekjum og þjónustutekjum. Þegar hann er það ekki lengur birtist það sem halli á aðalsjóði fyrir fjármagnsliði og reyndar eftir fjármagnsliði líka. Þetta veldur okkur áhyggjum, eins og við bendum á í skýrslunni,“ segir Birgir.

Hlutfallslegar skuldir A-hluta Reykjavíkurborgar 2002 til 2014
Hlutfallslegar skuldir A-hluta Reykjavíkurborgar 2002 til 2014
© Jóhannes Stefánsson (VB MYND/JS)

Skuldahlutfall innan marka en skuldir hækkað

Ljósi punkturinn hvað fjárhag Ahluta Reykjavíkurborgar varðar er sá að hlutfall skulda af heildartekjum er vel innan marka og hefur lækkað til langs tíma litið. Skuldahlutfall var þannig tæp 120% árið 2002 en stóð í 77% í lok árs 2014.

Hér er þó til nokkurra atriða að líta. Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að álögur hafa hækkað talsvert og tekjur aukist sem því nemur, sem lækkar skuldahlutfallið þó ekki hafi skuldirnar lækkað. Í öðru lagi ber að hafa í huga að aukning á tekjum borgarinnar vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks hafði áhrif til lækkunar skuldahlutfalls. Í þriðja lagi hafa skuldir hækkað nokkuð þrátt fyrir lækkandi skuldahlutfall.

Skuldir námu þannig 38,5 milljörðum árið 2002 en voru 64,6 milljarðar í lok árs 2014, en þetta þýðir að hver Reykvíkingur skuldar nú 532.653 krónur, borið saman við 342.192 krónur árið 2002.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .