Tillaga um lækkun útsvars í Reykjavík var felld á fundi borgarstjórnar sem fór fram þann 5. maí síðastliðinn. Tillagan var lögð fram sem hugmynd af vefnum Betri Reykjavík þar sem íbúum gefst kostur á að setja fram hugmyndir sínar um málefni sem varða þjónustu og rekstur Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að taka hugmyndir af Betri Reykjavík til formlegrar meðferðar á þann hátt að mánaðarlega fara fimm efstu hugmyndirnar til vinnslu hjá viðkomandi fagráði.

Hugmyndin um lækkun útsvars , sem 23 hafa nú kosið með en tveir á móti, var efsta hugmynd marsmánaðar í málaflokknum „stjórnsýsla“, og var þess vegna send borgarráði til meðferðar. Útsvar í Reykjavík er það hæsta sem leyfist og nemur 14,52%.

Tillagan var hins vegar felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata með vísan til umsagnar fjármálaskrifstofu. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með tillögunni, en borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við afgreiðslu málsins.