Reykjavíkurborg braut gegn lögum um verðbréfaviðskipti með því að hafa ekki tilkynnt Fjármálaeftirlitinu (FME) samdægurs um að hafa lánað viðskiptavaka skuldabréf útgefin af borginni. Borginni var þó ekki gert að greiða sekt vegna brota sinna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FME.

Um nokkurn fjölda tilvika var að ræða á tíu ára tímabili sem spannaði frá 2009 til febrúar 2019. Að mati FME ber útgefanda ekki að sinna rannsóknarskyldu eða tilkynningarskyldu verðbréfaviðskiptalaga áður en viðskipti eiga sér stað. Það á við í þeim tilvikum þegar verðbréfalán er veitt á grundvelli samnings milli útgefanda og viðskiptavaka.

„Framangreint er háð því skilyrði að útgefandi hafi ekki aðkomu að ákvörðun um hvenær verðbréfalán er veitt á grundvelli samningsskyldna sem á honum hvíla gagnvart viðskiptavaka.Þrátt fyrir framangreint er útgefanda engu að síður skylt að fullnægja tilkynningarskyldusamkvæmt 3. ml. 1. mgr. 126. gr. vvl. þegar um er að ræða verðbréfalán, þ.e. að tilkynna ber Fjármálaeftirlitinu samdægurs um viðskipti þegar verðbréfalán hefur verið veitt,“ segir í niðurstöðu FME.

Þar sem ekki var um viðskipti fruminnherja að ræða, sem borginni hefði verið skylt að birta opinberlega, og þar sem borgin upplýsti FME um brotin var það ákvörðun FME að gera sveitarfélaginu ekki að greiða sekt.