*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 3. apríl 2020 11:04

Borgin breytir innheimtureglum

Breytingin snýr bæði að kröfum fyrirtækja og einstaklinga en megin breytingin snýr að auknum greiðslufresti.

Ritstjórn
Ráðhús Reykjavíkur.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Borgarráð hefur samþykkt tímabundnar breytingar á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna aðgerða sem tengdar eru efnahagslegum áhrifum af Covid-19 faraldrinum. Breytingin snýr bæði að kröfum fyrirtækja og einstaklinga. Tilgangurinn með því að breyta innheimtureglunum er að auka sveigjanleika í innheimtu í ljósi núverandi efnahagsástands, að innheimta verði sanngjörn og að dráttarvextir og kostnaður verði í lágmarki um leið og hagsmuna borgarinnar verði jafnframt gætt.

Í tilkynningu frá borginni segir að megin breytingin snúi að greiðslufrestum. Í reglunum má finna ný ákvæði um greiðslufresti almennra krafna, um greiðslufresti fasteignagjalda, bæði almenn og sértæk úrræði og um frestun leigugreiðslna. Þar má einnig finna ákvæði um greiðsludreifingu þeirra almennu krafna sem hefur verið frestað og breytingar á ákvæði um dráttarvexti á almennum kröfum.

Almennar kröfur

Hægt er að óska eftir að lengja eindaga í allt að 90 daga á allt að þremur kröfum í hverjum gjaldaflokki almennra krafna á gildistíma reglnanna. Þetta á ekki við um gjöld sem greiða þarf áður en ákveðin þjónusta er veitt á umhverfis- og skipulagssviði.

Hægt verður að óska eftir allt að 6 mánaða greiðsludreifingu á almennum kröfum sem lengt verður í eindaga í samráði við innheimtuaðila Reykjavíkurborgar, Momentum.

Fasteignaskattar og fasteignagjöld

Eftirstöðvum ógjaldfallinna fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins, fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, sem koma til gjalda í maí til október verður dreift á mánuðina maí til desember.  Ógjaldfallin fasteignagjöld koma því til greiðslu á 8 mánuðum í stað 6 mánaða. Breytingin snýr bæði að íbúðar- og atvinnuhúsnæði og þarf ekki að sækja sérstaklega um þetta.

Fyrirtæki geta óskað eftir því að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, vegna tekjufalls, til 15. janúar 2021.  Þetta úrræði er í samræmi við nýsamþykkt lög frá Alþingi um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Skilyrði fyrir þessari frestun eru þau sömu og skilyrði fyrir frestun opinberra gjalda sem sækja þarf um hjá Skattinum.

Frestun á leigugreiðslum

Leigutakar hjá Reykjavíkurborg geta óskað eftir frestun greiðslu leigu á allt að fjórum gjalddögum, þ.e. þeim leigugreiðslum sem eru á gjalddaga í mars, apríl, maí og júní. Leigutakar þurfa að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum.

Dráttarvextir

Dráttarvextir reiknast af höfuðstól almennra krafna frá eidaga fram að greiðsludegi sé krafa greidd eftir eindaga. Hingað til hafa dráttarvextir reiknast af höfuðstól almennra krafna frá gjalddaga að greiðsludegi sé krafa greidd eftir eindaga.

Dráttarvextir reiknast af höfuðstól fasteignagjaldakrafna frá gjalddaga fram að greiðsludegi sé krafa greidd eftir eindaga. Er þetta óbreytt frá því sem verið hefur enda eru gjalddagar, eindagar og útreikningur dráttarvaxta á þau bundin í lög.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vef borgarinnar.