*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 18. febrúar 2021 13:54

Borgin fjármagnar til 2-5 ára

Reykjavík hyggst sækja sér fjármagn til 2-5 ára, en hingað til hefur lántaka hennar nær alfarið verið til lengri tíma.

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Guðjónsson

Reykjavíkurborg hyggst sækja sér allt að 5 milljarða króna til 2-5 ára í formi skuldabréfaflokks og/eða lántöku hjá fjármálastofnun. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Borgarráð samþykkti á fundi fyrr í dag að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar að leita tilboða í ofangreinda lántöku.

Lántakan yrði hluti af þeim 34,4 milljörðum króna sem fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að verði teknir að láni á þessu ári. Tilgangur lántökunnar er sagður verða að mæta hallarekstri borgarinnar á næstu árum vegna aðstæðna í efnahagslífinu.

Borgin hefur hingað til nær alfarið gefið út lengri skuldabréf, en í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun er fjallað ítarlega um fjármögnun borgarinnar, tímalengd hennar og kjör, auk þess sem komið er inn á metlántöku hennar á þessu ári.

Þar er haft eftir Halldóru Káradóttur, sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, að til skoðunar sé að borgin sæki fjármögnun til skemmri tíma, enda verið að fjármagna rekstrarhalla til viðbótar við langtímafjárfestingar.

Stikkorð: Reykjavíkurborg