*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 6. desember 2019 10:50

Borgin hafnaði að lækka fasteignaskatta

Reykjavík ein um að halda sköttum á atvinnuhúsnæði í hámarki. 7 af 12 stærstu lækka skatta á atvinnuhúsnæði.

Ritstjórn
Reykjavíkurborg er ein um að halda fasteignasköttum í hámarki. Meirihluti Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar hafnaði tillögu Sjálfstæðismanna um að lækka skattinn fyrir næsta ár. Garðabær samþykkti lækkun í gær.
Hörður Kristjánsson

Í gærkvöldi samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar lækkun fasteignaskatta í bænum fyrir árið 2020, og hafa þar með fimm af átta stórum sveitarfélögum við Faxaflóann lækkað fasteignaskatta sína fyrir næsta ár að því er Félag atvinnurekenda bendir á.

Meirihluti Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar í Reykjavíkurborg hafnaði hins vegar á þriðjudag tillögu Sjálfstæðismanna sem sitja í minnihluta um að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði úr lögbundnu hámarki, 1,65%, í 1,6%.

Þar með er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem heldur fasteignaskattinum á atvinnuhúsnæði í hámarkinu og hækka því skattgreiðslur fyrirtækja í Reykjavík vegna húsnæðis um 4,7% á næsta ári. Samanlagt er hækkunin frá árinu 2014 þar með 73,3%, samhliða mikilli hækkun fasteignamats.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir framgöngu borgaryfirvalda mikið umhugsunarefni, en með þessari ákvörðun versnar samkeppnisstaða fyrirtækja í Reykjavík enn meira en ella samanborið við nágrannasveitarfélögin.

„Það er afskaplega miður að stærsta sveitarfélagið, þar sem meirihluti alls skrifstofu- og verslunarhúsnæðis er staðsettur, skuli hlaupast svona undan ábyrgð og sýna aðstæðum fyrirtækjarekstrar svona lítinn skilning,“ segir Ólafur sem segir mörg þeirra hljóta að hugsa sér til hreyfings.

„Það vekur þó athygli að í sumum sveitarfélögum er hækkun álagna á atvinnuhúsnæði umtalsverð, þrátt fyrir lækkun skattprósentunnar. Þegar slíkar álögur bætast við aukinn launakostnað gefur auga leið að fyrirtækin eiga erfiðara með að halda óbreyttu verði á vörum og þjónustu, sem gerir svo aftur undirstöður lífskjarasamninganna frá því í vor veikari en ella,“

Af tólf stærstu sveitarfélögunum á landsins hafa átta þeirra ákveðið að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði fyrir næsta ár, en sjö þeirra lækka skattana á atvinnuhúsnæði.