Í drögum að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um átak í viðhaldi og endurnýjunar á gatnakerfi borgarinnar kom meðal annars fram að greina eigi ástæður versnandi ástands, skemmda og holumyndunar ásamt því að gera tillögur að frekari rannsóknum.

Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu í dag, en þar kemur einnig fram að á undanförnum árum hafi viðgerðir gatna verið einfaldari og jafnvel lögð þynnri yfirlög en áður tíðkaðist. Á að meta reynsluna af þessu miðað við kostnað og endingu.

Tæplega þriðjungi minni malbikun milli tímabila

Samkomulagið sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur lagt fram í borgarráði, var einnig á dagskrá Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í sumar, en Dagur er jafnframt formaður þess, og var þar öðrum sveitarfélögum boðið að taka þátt í því.

Á fundi borgarráðs kom fram bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem styðja að gert verði samkomulag við Vegagerðina um átak í viðhaldi og endurnýjun gatnakerfis borgarinnar.

„Mikil þörf fyrir viðhald og endurnýjun hefur safnast upp. Á árunum 2006-2009 voru malbikaðir að meðaltali 15,3 km á ári en á árunum 2010-2013 voru malbikaðir að meðaltali 10,8 km á ári,“ segir í bókun flokksins. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tók undir bókun Sjálfstæðismanna í sinni bókun.

Leiðrétting: Áður stóð að Reykjavíkurborg hafi notað þynnra malbik. Hins vegar komu drögin frá Vegagerðinni — og eru enn einungis drög. Fréttinni hefur verið breytt.