Reykjavíkurborg kynnti í dag fjármálaáætlun 2022-26 en þar er lagt til að álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu á næsta ári verði óbreytt. Álagningarhlutfall atvinnuhúsnæðis í Reykjavík nemur nú 1,60%, það hæsta meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Félag atvinnurekenda, FA, segir í færslu á Facebook að tillaga borgarstjórnarmeirihlutans valdi miklum vonbrigðum.

„Á sama tíma og fjöldinn allur af fyrirtækjum hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum og sum hafa engar tekjur haft af húsnæði sínu í langan tíma, ákveða borgaryfirvöld að viðhalda hæstu skattprósentu allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“

Sjá einnig: Hár skattur að fæla fyrirtæki úr borginni?

FA bendir á að borgin hafi innheimt 14,6 milljarða króna í fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði á síðasta ári, rúmlega fimm milljörðum meira en árið 2016.

„Áform borgarstjórnarmeirihlutans hjálpa fyrirtækjum ekki út úr Covid-kreppunni, svo mikið er víst,“ segir í færslu FA.

Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í 12 stærstu sveitarfélögum
Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í 12 stærstu sveitarfélögum
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Samantekt FA á fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði í tólf stærstu sveitarfélögunum á árunum 2020 og 2021.