Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum síðastliðinn laugardag að gera samkomulag við Samtök iðnaðarins (SI) fyrir hönd verktaka og greiða verðbætur vegna óverðtryggðra verksamninga. Þar með er að nást í höfn mikið baráttumál verktaka sem orðið hafa fyrir umtalsverðu tjóni vegna hækkana eftir samþykkt óverðbættra verktilboða.

Greint er frá því á vefsíðu SI að um árabil hafa verksamningar sem gerðir eru til lengri tíma en til eins árs verið verðbættir. Þannig var það líka í upphafi árs þegar Reykjavíkurborg bauð út framkvæmdir ársins. Síðan reið yfir holskefla hækkana á hráefni og aðföngum til mannvirkjagerðar. Nánast öll hráefni á erlendum mörkuðum hækkuðu eins og timbur, stál, málmar og lagnaefni að ónefndri olíu. Hækkunin var nær linnulaust á fyrrihluta ársins og allt fram á haust. Til viðbótar lækkaði gengi íslensku krónunnar um 25 % fyrir páska. Gengishrunið í haust hafði einnig mjög alvarleg áhrif á þessa verksamninga.

Forsendur sem verktakar höfðu gefið sér þegar þeir reiknuðu tilboð sín á vordögum voru brostnar og engin leið eða sanngirni að krefja þá um að standa við samninga. Til að mæta þessum ófyrirséðu áföllum hefur verið unnið að samkomulagi sem bætir verktökunum þessar hækkanir að hluta.

Í byrjun sumars tóku Vegagerðin og Siglingastofnun upp verðtryggingu allra verksamninga, en erfiðlega hefur gengið að ná samningum við Reykjavíkurborg þar til nú.

„Við fögnum þessari afstöðu borgarinnar við sanngjarnri kröfu verktaka," segir Árni Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs SI. Staða verktaka hafi verið afleit vegna þessara ófyrirséðu hækkana og ekki hafi verið sanngjarnt að verktakar hafi einir átt að standa undir þeim.