Samþykkt var á fundi borgarráðs í morgun að borgin gangi til samningaborðsins við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á Perlunni. Borgin mun einnig ganga til samninga við ríkið um að það leigi húsnæðið í allt að 15 ár og komi þar upp náttúruminjasýningu.

Talið er að borgin sé reiðubúin að greiða allt að einn milljarð króna fyrir Perluna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt meirihlutann fyrir að vilja greiða svo hátt verð fyrir eign fyrirtækis sem er að stærstum hluta í eigu borgarinnar sjálfrar.

Ef samningar takast við OR um kaupin og ríkir leigir húsið fyrir náttúruminjasýningu mun Reykjavíkurborg gera breytingar á Perlunni fyrir allt að 100 milljónir króna svo hægt verði að koma þar upp sýningu um náttúru Íslands.
Því gæti heildarkostnaður hljóðað upp á minnst 1,1 milljarð króna.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með kaupunum verði almenningi áfram tryggður aðgangur að Perlunni og umhverfi hennar, þó með þeim takmörkunum að selt verður inn á náttúruminjasýninguna. Skipulagskeppni stendur nú yfir um um Öskjuhlíðina á vegum skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.