Borgin hefur keypt Alliance-húsið svokallaða við Grandagarð ásamt lóðaréttindum af Inn Fjárfestingu, félagi Ingunnar Wernersdóttur. Kaupverðið er 350 milljónir króna. Hugmyndahús háskólanna var áður með aðsetur í húsinu. Borgin keypti átti húsið í vikutíma í maí árið 2007. Hún keypti það á 925 milljónir króna af Reykjagarði, félagi Sláturfélags Suðurlands, og seldi félagi Ingunnar fyrir jafn háa upphæð.

Borgaráð samþykkti kaupsamninginn á fundi sínum í gær.

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að húsið var reist á árunum 1924 til 1925 til að hýsa starfsemi útgerðarfyrirtækisins Alliance sem Thor Jensen og fleiri ráku.

Ytra byrði hússin er friðað og verður fyrsta hæð hússins leigð Sögusafninu Perlunni næstu 25 árin.  Reykjavíkurborg gekk inn í kaupsamning sem Sögusafnið hafði gert við Inn Fjárfestingu.  Þær kvaðir hvíla á húsinu að það verði nýtt fyrir menningartengda starfsemi og hyggst borgin gera húsið upp.

Sögusafnið hefur verið til húsa í Perlunni en leigusamningi þar var sagt upp fyrir skömmu.