Engir innkaupalistar vegna næsta skólaárs verða gefnir út hjá grunnskólum Reykjavíkur á þessu hausti og munu nemendur fá þau skólagögn sem þeir þurfa þegar þeir mæta til starfa 22. ágúst. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þann 6. desember 2017 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að námsgögn sem nemendur nota á skólatíma skyldu verða þeim og fjölskyldum þeirra að kostnaðarlausu frá og með skólaárinu 2018 – 2019. Byggði sú samþykkt m.a. á tilmælum frá foreldrafélögum skólanna og Samtökum foreldrafélaga grunnskólabarna í Reykjavík (SAMFOK). Slíkt fyrirkomulag sparar bæði fé og tíma, er umhverfisvænna og stuðlar að betri nýtingu skólagagna.

Þau skólagögn sem nemendur fá endurgjaldslaust eru meðal annars stílabækur, reikningsbækur, möppur, vinnubækur, vinnubókarblöð, pappír, ritföng, litir, vasareiknar og fleira. Gæðanefnd skipuð skólastjórum og fulltrúum þeirra útbjó gæðakröfur sem gerðar voru til þeirra skólagagna sem boðin voru út. A4 átti lægsta tilboðið og var því gengið til samninga við fyrirtækið. Nam tilboð þeirra í skólagögn um 40 milljónum króna.

Talsverð undirbúningsvinna fylgdi þessu útboði á vegum borgarinnar og var um lærdómsferli að ræða sem mun nýtast þegar næsta útboð fer fram fyrir skólaárið 2019-2020.