*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 4. mars 2019 15:05

Borgin komi með 10 þúsund krónur

Sjálfstæðismenn leggja til kjarapakka Reykjavíkurborgar, með lækkun útsvars og gjalda og uppbyggingu á Keldnalandi.

Ritstjórn
Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík segir borgina hafa gengið of langt í álögum á borgarana.
Haraldur Guðjónsson

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins kynnti í morgun útspil flokksins inn íkjaraviðræðurnar sem nú standa yfir milli aðila vinnumarkaðarins, en þær fela í sér að útsvar verði lækkað úr hámarki borgarinnar, að orkureikningur heimilanna frá Orkuveitu Reykjavíkur yrði lækkaður með lækkun arðgreiðslukrafna, að byggt verði á Keldnalandinu án skilyrða um aðra uppbyggingu og að byggingarréttargjöldum verði stillt í hóf. Bein viðbót ráðstöfunartekna heimilis næmi um 120 þúsund krónum árlega eftir skatta, eða um 10 þúsund krónum á mánuði.

Er tillagan þvert á það sem bæði borgarstjóri Dagur B. Eggertsson og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa sagt um að ekki sé svigrúm hjá sveitarfélögunum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagt að ríkið gæti ekki lækkað skatta meira en fyrirliggjandi tillögur eru um, og komið væri að sveitarfélögunum ef menn vildu að skattar yrðu lækkaðir meira til að bæta kjör lágtekjuhópa. Einnig hafa forsvarsmenn Viðskiptaráðs og Félags atvinnurekenda kallað á að sveitarfélögin leggi sitt af mörkum til að leysa kjaraviðræðurnar.

„Borgin hefur farið of langt í að leggja álögur og gjöld á íbúana,“ segir Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna, sem eru í minnihluta í borginni. „Nú er tækifæri til að snúa því við og gera borgina samkeppnishæfari. Þessar aðgerðir ættu að liðka fyrir kjaraviðræðunum en jafnframt að losa Reykjavíkurborg úr þeirri kyrrstöðu sem hún hefur verið í varðandi hagstætt húsnæði og samkeppnishæfni.“ Flokkurinn nefnir að á móti tekjulækkun borgarinnar mætti spara í rekstri borgarinnar, m.a. með bættum innkaupum.

Helmingslækkun skatta af tekjum á móti ríkinu

Tillaga Sjálfstæðismanna er sett fram sem heildstæður kjarapakki í fjórum liðum, þar sem fyrstu tveir liðirnir fela í sér að álagningarhlutfall úsvars fyrir árið 2019 lækki sem nemi um 84 þúsund krónum á ársgrundvelli, á fjölskyldu með tvær fyrirvinnur og að gjöld yrðu lækkuð um 36 þúsund krónur á ársgrundvelli, samtals 120 þúsund krónur. Það gerir um 7 þúsund krónu lækkun skattgreiðslna heimilis á mánuði, sem er svipuð fjárhæð og skattatillögur fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir á mann.

Þriðja tillagan felur í sér að Keldnalandið yrði keypt af ríkinu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins, en eins og Viðskiptablaðið hefur rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra segir hann uppbyggingu Borgarlínu forsendu byggðar á svæðinu sem er á milli núverandi hverfa í Grafarvogi, Grafarholts og Úlfarsárdals. Fjórða tillagan er þessu skyld, það er að byggingarréttargjöld í borgarlandinu verði stillt í hóf með því að tryggja nægt framboð fjölbreyttari lóða.

  • 1. tillagan:

Samkvæmt henni yrði álagningarhlutfall útsvars fyrir tekjuárið 2019 lækkað úr lögbundnu hámarki, 14,52% í 14,00% frá og með 1. maí næstkomandi, en það myndi þýða að borgin yrði af 1,9 milljarði á árinu í tekjur.

  • 2. tillagan:

Hér er gert ráð fyrir að horfið verði frá því að Orkuveitan greiði 13 milljarða arð til eigenda sinna, sem að stærstum hluta er Reykjavíkurborg, á næstu fimm árunum, en þessa upphæð væri hægt að nýta til að spara hverju heimili í borginni á bilinu 50 til 60 þúsund krónur árlega í orkukostnað. Benda Sjálfstæðismenn á að húshitunarkostnaður í borginni sé 30% hærri en t.a.m. á Egilsstöðum og hærri en á Selfossi og Akureyri, sem og að raforkuverð sé hærra, en t.d. hjá Orkubúi Vestfjarða.

  • 3. tillagan:

Hér vísar borgarstjórnarflokkurinn á að áhersla var lögð á Keldnalandið í skýrslu átakshóps forsætisráðherra um húsnæðismál, sem og að verkalýðsfélögin segist ekki ætla að skrifa undir kjarasamninga án þess að fyrir liggi samkomulag um að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaði. Þannig eigi borgin að tryggja að byggingarskilmálar lágmarki kostnað við byggingar á svæðinu, og að afgreiðslutími skipulagssviðs og byggingarfulltrúa verði styttur. Loks að ekki verði lagt sérstakt innviðargjald á lóðirnar.

  • 4. tillagan.

Þar er haldið áfram í sömu knérunn og í þeirri þriðju, og lagt til að borgin tryggi nægt framboð fjölbreyttra lóða og stilli byggingarréttargjöldum almennt í hóf. Bendir flokkurinn á að til dæmis 25 þúsund króna lækkun á byggingarréttargjaldi á fermetra myndi lækka leigu á 90 fermetra íbúð um 100 þúsund krónur á ári. Hins vegar myndu sérstök innviðagjöld líkt og talað er um í kringum uppbyggingu Borgarlínu hafa gagnstæð áhrif.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is